Freyja og Andrea tryggðu Björk þrjá Íslandsmeistaratitla! – Íslandsmótið í áhaldafimleikum

  • 11. mars, 2012

Freyja og Andrea tryggðu Björk þrjá Íslandsmeistaratitla! – Íslandsmótið í áhaldafimleikum

Í dag var keppt til úrslita á áhöldum á Íslandsmótinu í áhaldafimleikum sem fram fór í Laugarbóli, fimleikahúsi þeirra Ármenninga, nú um helgina.

Þær Freyja Húnfjörð Jósepsdóttir og Andrea Rós Jónsdóttir tryggðu Fimleikafélaginu Björk þrjá Íslandsmeistaratitla í unglingaflokki með því að sigra á stökki, tvíslá og á jafnvægisslá.  Glæsilegur árangur það.  Það munaði hársbreidd að Þórey Kristinsdóttir bætti við fjórða titlinum fyrir Bjarkirnar þegar hún var einungis 0,05 stigum frá sigri í gólfæfingum í flokki fullorðinna.

Freyja, sem í gær fékk silfur í fjölþraut í unglingaflokki, átti frábæran dag í dag.  Hún gerði tvö glæsileg stökk og sigraði þar með nokkrum yfirburðum.  Á tvíslánni hefur Freyja verið að bæta inn nokkrum erfiðum æfingum.  Hún náði ekki að framkvæma þær fullkomlega í dag en varð samt sem áður í 2. sæti.  Á jafnvægisslánni, þar sem henni gekk svo illa í fjölþrautinni, gekk mjög vel að þessu sinni og hún sigraði, þrátt fyrir eitt fall.  Á gólfinu er Freyja einnig að bæta við erfiðum æfingum og kom það aðeins niður á lendingum, en þar hafnaði hún í 2. sæti.  Tvö gull og tvö silfur í dag, glæsilegur árangur það.

Andrea hóf daginn á því að stökkva þar sem hún varð í 5. sæti.  Á tvíslánni gerði hún síðan óaðfinnanlegar æfingar og sigraði glæsilega.  Á gólfinu gerði hún síðan mjög vel þar sem hún hafnaði í 4. sæti.  Í gær í fjölþrautinni hafnaði Andrea í 4. sæti.

Þórey keppti í dag til úrslita í fullorðinsflokki á þremur áhöldum.  Hún gerði sér lítið fyrir og hafnaði í 2. sæti á stökki með tvö mjög há og glæsileg stökk.  Á gólfinu gerði hún frábæra seríu en varð að gera sér 2. sætið að góðu þar einnig, einungis 0,05 stigum frá gullinu.  Þórey hafnaði í 6. sæti í fjölþrautinni í flokki fullorðinna í gær.

Þeir Stefán Ingvarsson og Þorsteinn Hálfdánarson kepptu einnig í dag til úrslita á áhöldum en þeir eru báðir í unglingaflokki.  Stefán komst næst því að ná verðlaunum þar sem hann varð í 4. sæti á tvíslá.  Hann keppti einnig á bogahesti þar sem hann hafnaði í 5. sæti.  Þorsteinn keppti til úrslita á stökki.  Hann gerði tvö kraftmikil stökk og hafnaði í 5. sæti.  Í fjölþrautarkeppninni í gær varð Stefán í 7. sæti í flokki unglinga og Þorsteinn í því 8.

Mjög viðunandi árangur hjá þessum ungu efnilegu Bjarkarstrákum sem báðir eru á sínu fyrsta ári í unglingaflokki.  Þeir munu eflaust gera tilkall til verðlauna og titla á næstu árum fyrir Bjarkirnar.

Nánari úrslit af mótinu í dag hér!tn_500x_1640-0

Myndin (að ofan) sýnir glæsilega fulltrúa Fimleikafélagsins Björk á Íslandsmótinu í áhaldafimleikum þ.e. þau (frá vinstri) Stefán Ingvarsson, Freyja Húnfjörð Jósepsdóttir, Andrea Rós Jónsdóttir, Þórey Kristinsdóttir og Þorsteinnn Hálfdánarson.