Kristjana Ýr Íslandsmeistari unglinga! – Íslandsmótið í áhaldafimleikum

  • 9. mars, 2013

Kristjana Ýr Íslandsmeistari unglinga! – Íslandsmótið í áhaldafimleikum

Bjarkarstúlkan Kristjana Ýr Kristinsdóttir varð í dag Íslandsmeistari unglinga í fjölþraut á Íslandsmótinu í áhaldafimleikum sem fram fer í Versölum í Kópavogi (Gerplu).  Nína María Guðnadóttir einnig frá Björk varð í 3. sæti.  Glæsilegur árangur hjá stúlkunum og mjög ánægjulegur fyrir Fimleikafélagið Björk þar sem þetta er fyrsti Íslandsmeistaratitill félagsins í fjölþraut í frjálsum æfingum í 14 ár eða síðan Elva Rut Jónsdóttir varð Íslandsmeistari kvenna árið 1999.

tn_500x_1810-0Auk Kristjönu og Nínu kepptu frá Björk þær Steinunn Anna Svansdóttir (unglingaflokkur), sem stóð sig einnig mjög vel og er í úrslitum á þremur áhöldum á morgun, og Þórey Kristinsdóttir (fullorðinsflokkur) en hún keppti eingöngu á tvíslá þar sem hún meiddist lítilsháttar og hætti þátttöku.  Piltarnir frá Björk tóku ekki þátt að þessu sinni.

Í dag var keppt í fjölþraut á mótinu þar sem Thelma Rut Hermannsdóttir og Ólafur Garðar Gunnarsson, bæði frá Gerplu, urðu Íslandsmeistarar í kvenna og karlaflokki.  Thelma er að vinna Íslandsmeistaratitilinn í 5. sinn í röð en Ólafur Garðar er Íslandsmeistari í fyrsta sinn.  Árangur Ólafs er sérlega glæsilegur í ljósi þess að á Íslandsmótinu í fyrra sleit hann hásin í gólfæfingum var þar með úr leik í nokkra mánuði.  Valgarð Reinhardssson varð, eins og Kristjana Ýr, Íslandsmeistari unglinga en hann kemur einnig frá Gerplu.

Á morgun (sunnudag) verður keppt í úrslitum á eintökum áhöldum þar sem stúlkurnar verða áfram í eldlínunni.  Hvetjum Bjarkarfólk til að mæta og hvetja fremsta fimleikafólk landsins til dáða.  Mótið hefst kl. 14.30.

Öll úrslit af mótinu er hægt að nálgast hér!

Myndin efst er af þeim Valgarði Reinhardssyni og Kristjönu Ýr.