Bætt æfinga-og keppnisaðstaða í Íþróttamiðstöðinni Björk!

  • 17. febrúar, 2014

 Bætt æfinga-og keppnisaðstaða í Íþróttamiðstöðinni Björk!

Á fyrstu tveimur mánuðum ársins hefur Fimleikafélagið Björk verið að fá og setja upp í Íþróttamiðstöðinni Björk ný áhöld og tæki sem bæta æfinga-og keppnisaðstöðu iðkenda félagsins til mikilla muna.tn_500x_1949-0

Fimleikadeild fékk í byrjun ársins stökkhest ásamt kvenna- og karla tvíslá.  Allt eru þetta keppnisáhöld sem standast nýtíma kröfur um gæði áhalda á mótum í áhaldafimleikum.  Undanfarin ár hefur Fimleikadeild þurft að fá lánuð áhöld hjá öðrum félögum til að uppfylla lágmarkskröfur um gæði áhalda, en með þessum nýju áhöldum ætti sú fyrirhöfn að mestu leiti að heyra sögunni til.  Á næstu vikum mun Taekwondodeild fá nýtt gólf fyrir sína iðkendur og Klifurdeild fær nýjan æfingabúnað sem tryggir betur öryggi iðkenda.  Þessi áhöld og tæki koma sér því mjög vel fyrir þá u.þ.b. 1300 iðkendur sem stunda íþróttir hjá félaginu á ársgrundvelli.

Í lok síðasta árs samþykkti Framkvæmdarsvið Hafnarfjarðarbæjar að aðstoða félagið fjárhagslega á næstu þremur árum við endurnýjun á áhöldum og tækjum í Íþróttamiðstöðinni Björk.  Ofangreind fjárfesting er til komin vegna þessa og þökkum við bæjaryfirvöldum veittan stuðning og velvild í garð félagsins.

Myndin sem fylgir fréttinni er af nýja stökkhestinum.