Bjarkarstúlkur í baráttunni! – Íslandsmótið í áhaldafimleikum
Bjarkarstúlkur í baráttunni! – Íslandsmótið í áhaldafimleikum
Íslandsmótið í áhaldafimleikum fór fram liðna helgi í Laugarbóli, fimleikahúsi Ármanns. Allt besta fimleikafólk landsins var þar samankomið.
Á laugardeginum var keppt um Íslandsmeistaratitla í fjölþraut í unglingaflokki og í flokki fullorðinna, bæði hjá piltum og stúlkum. Nína María Guðnadóttir frá Björk hafnaði þar í 3. sæti í unglingaflokki (af 13 keppendum). Frábær árangur það hjá Nínu en hún varð einnig í 3. sæti í þessari sömu keppni fyrir ári síðan. Kristjana Ýr Kristinsdóttir varð í 4. sæti, og systir hennar, Margrét Lea Kristinsdóttir keppti einnig í flokki unglinga en sökum meiðsla var hún aðeins með á tveimur áhöldum þar sem hún stóð sig mjög vel, var t.d. með hæstu einkunn á jafnvægisslá á laugardeginum. Þórey Kristinsdóttir varð í 5. sæti í flokki fullorðinna (af 13 keppendum).
Íslandsmeistarar í fjölþraut á mótinu urðu Bjarki Ásgeirsson, Ármanni og Norma Dögg Róbertsdóttir, Gerplu, og í flokki unglinga sigruðu Eyþór Örn Baldursson, Gerplu og Nanna Guðmundsdóttir, Gróttu.
Á sunnudaginn var keppt til úrslita á áhöldum. Þar varð Kristjana Ýr Kristinsdóttir í 2. sæti á þremur áhöldum í keppni unglinga, þ.e. á stökki, jafnvægisslá og á gólfi. Nína María hafnaði í 3. sæti á tvíslá, og Þórey Kristinsdóttir, sem var eini fulltrúi Bjarkanna í flokki fullorðinna, náði 3. sæti í gólfæfingum.
Fimleikafélagið Björk átti ekki þátttakanda í karlaflokki á mótinu að þessu sinni.
Mótið var mjög skemmtilegt og vel framkvæmt að hálfu Ármenninga. Fjölmargir áhorfendur mættu til að horfa á frábæra fimleika og hvetja sitt fólk.
Öll úrslit eru hér
Myndin sem fylgir frétt er af Bjarkarstúlkunum Þóreyju Kristinsdóttur, Nínu Maríu Guðnadóttur, Margréti Leu Kristinsdóttur og Kristjönu Ýr Kristinsdóttur.