Kvennalandsliðið með brons á Norðurlandamótinu í fimleikum

  • 21. apríl, 2014

 Kvennalandsliðið með brons á Norðurlandamótinu í fimleikum

tn_500x_1977-0

Um nýliðna helgi fór fram Norðurlandamót í áhaldafimleikum.  Svíþjóð, Finnland, Noregur og Danmörk ásamt Íslandi, mættu til leiks með lið (5 í liði) í liðakeppninni, auk þess sem keppendur frá Færeyjum tóku þátt í einstaklingskeppninni.

Landslið kvenna, með Bjarkarstúlkuna Þóreyju Kristinsdóttur innanborðs, stóð sig frábærlega og náði bronsverðlaunum í liðakeppninni á laugardeginum.  Þórey keppti á öllum áhöldum og gekk mjög vel.  Í einstaklingskeppninni hafnaði hún í 12. sæti af 17 keppendum sem kepptu á öllum áhöldum.

Unglingalið Íslands (kvenna) varð í 4. sæti en eins og áður hefur komið fram voru tvær stúlkur frá Björk í því liði, þær Kristjana Ýr Kristinsdóttir og Nína María Guðnadóttir.  Þær kepptu báðar á öllum áhöldum og stóðu sig mjög vel.  Nína sem var að keppa í fyrsta sinn fyrir hönd Íslands hafnaði í 18. sæti og Kristjana í því 20. (af 23 þátttakendum í fjölþraut).

Báðir flokkar íslenska karlalandsliðsins höfnuðu í 5. og síðasta sæti í liðakeppninni.  Í unglingaflokki var Bjarkarmeistarinn Stefán Ingvarsson meðal keppenda.  Hann stóð sig með stakri prýði og fór í gegnum allar æfingarnar án stórra mistaka, og hafnaði í 21. sæti af 25 sem þátt tóku í fjölþraut.

Á sunnudeginum var keppt til úrslita á áhöldum þar sem Jón Sigurður Gunnarsson (Ármanni) og Norma Dögg Róbertsdóttir (Gerplu), unnu bæði til silfurverðlauna, Jón í hringjum og Norma á stökki.  Bæði kepptu þau í keppni fullorðinna.  Eyþór Örn Baldursson (Gerplu) fékk síðan bronsverðlaun í keppni unglinga í hringjum.

Í liðakeppninni voru Svíar í sérflokki en þeir sigruðu í báðum flokkum kvennamegin og í unglingaflokki karlamegin.  Finnar sigruðu síðan í fullorðinsflokki karlamegin.  Norðurlandameistarar kvenna urðu þær Emma Larson, Svíðþjóð, í flokki fullorðinna, og Ellen Haavisto, Svíðþjóð, í flokki unglinga.  Karlamegin varð Oskar Kirmes, Finnlandi, Norðurlandameistari í flokki fullorðinna, og David Rumbutis, Svíðþjóð, í flokki unglinga.

Oskar Kirmes er reyndar okkur Íslendingum að góðu kunnur þar sem hann fæddist hér á landi en faðir hans, Matti Kirmes, þjálfaði Rúnar Alexandersson á sínum tíma og bjó hér á landi í nokkur ár.  Þess má einnig geta að þó svo þeir Oskar Kirmes og David Rumbutis keppi fyrir sitt hvora þjóðina þá eru þeir násskyldir þar sem mæður þeirra eru systur (að því er fréttateymi heimasíðu Fimleikafélagsins Björk kemst næst).  Feður þeirra voru auk þess báðir frábærir fimleikamenn t.d. keppti Sergei Rumbutis, faðir Davids, fyrir sovéska landsliðið á sínum tíma.

Sjá úrslit Hér