Stefán tvöfaldur Íslandsmeistari unglinga! – Íslandsmótið í áhaldafimleikum

  • 23. mars, 2015

Stefán tvöfaldur Íslandsmeistari unglinga! – Íslandsmótið í áhaldafimleikum

tn_500x_2066-0Stefán Ingvarsson varð um helgina tvöfaldur Íslandsmeistari unglinga á Íslandsmótinu í áhaldafimleikum sem haldið var í fimleikahúsi Ármenninga um helgina.  Stefán sigraði í úrslitum á hringjum og á svifrá, og fékk auk þess tvenn silfurverðlaun (á bogahesti og á tvíslá).  Stefán keppti einnig til úrslita á stökki (5. sæti).  Í fjölþrautarkeppninni sem fram fór á laugardag hafnaði þessi ungi efnilegi fimleikamaður okkar í 3. sæti, eftir harða keppni við þá Aron Frey Axelsson (Ármanni) sem verð í 1. sæti og Martin Bjarna Guðmundsson (Gerplu) sem varð í 2. sæti.

Bjarkarpiltar fóru með ein verðlaun til viðbótar í flokki unglinga frá þessu móti þar sem Orri Geir Andrésson varð í 3. sæti á tvíslá.  Glæsilegur árangur það hjá ungum fimleikamanni sem á enn eftir að keppa í nokkur ár í flokki unglinga en Orri Geir var einnig í úrslitum á hringum (5. sæti), og hafnaði í 8. sæti í fjölþaut.

Bjarkarstúlkurnar Nína María Guðnadóttir og Margrét Lea Kristinsdóttir áttu einnig prýðisgott mót.  Margrét Lea hafnaði í 2. sæti í fjölþraut í flokki unglinga og Nína María í 3. sæti.  Sigurvegari í flokki unglinga í fjölþraut varð Nanna Guðmundsdóttir, Gróttu.  Í úrslitum á áhöldum fengu þær báðar silfurverðlaun, Nína María á tvíslá og Margrét Lea á slá.  Þær stöllur kepptu til úrslita á fleiri áhöldum.  Margrét Lea varð í 5. sæti á tvíslá og Nína María varð í 5. sæti á slá og gólfi.

Aðrir keppendur frá Björk sem stóðu sig einnig með prýði, öll í flokki unglinga, voru þau Breki Snorrason (10. sæti í fjölþraut), Fannar Logi Hannesson (9. sæti í fjölþraut) og Sara Mist Arnar (13. sæti fjölþraut).

Íslandsmeistarar í áhaldafimleikum í fullorðinsflokki urðu þau Thelma Rut Hermannsdóttir og Valgarð Reinhardsson, bæði frá Gerplu.  Mótið fór vel fram í styrkri

i umsjón Ármenninga og stemmingin á áhorfendapöllum var mjög góð.

Öll úrslit af mótinu er að finna hér: http://score.sporteventsystems.se/default.aspx

Myndin sem fylgir frétt er af þeim (frá vinstri) Stefáni Ingvarssyni, Vladimir Zaytsev þjálfara þeirra og Orra Geir Andréssyni.