Subway vormót FSÍ í hópfimleikum – Bjarkarstúlkur í baráttunni um verðlaunasæti!
Meistarahópur (MH) Fimleikafélagsins Björk tók þátt í Subway vormóti FSÍ í hópfimleikum síðastliðna helgi. Mótið fór fram hjá Hetti á Egilsstöðum. Mótið var mjög fjölmennt þar sem um 53 lið tóku þátt hvaðanæva af landinu og þátttakendur því allt að 500 talsins.
Bjarkarstúlkur stóðu sig með stakri prýði og voru í baráttunni um 3. sætið í 2. flokki. Að lokum urðu þær að sætta sig við 4. sætið rétt á eftir stúlkum frá Akureyri. Stjarnan stóð uppi sem sigurvegari í þessum flokki. Stúlkurnar mega svo sannarlega vel við una enda bættu þær sig verulega frá fyrri mótum í vetur og enduðu með heildareinkunina 38,066 stig.
Meðfylgjandi er mynd af Bjarkarstúlkum eftir mótið.
Úrslit af mótinu er að finna hér!