5 frá Björk á Norðurlandamóti

  • 25. maí, 2015

unglingalan

Norðurlandamót unglinga í pilta- og stúlknaflokki sem og Norðurlandamót drengja, fór fram í Finnlandi um síðastliðna helgi.  Fimm fimleikamenn frá Fimleikafélaginu Björk voru að þessu sinni valin til þátttöku fyrir hönd landsliðsins á þessu móti sem er glæsilegur árangur að hálfu okkar litla fimleikafélags.  Þetta voru þau Stefán Ingvarsson (unglingaflokki), Nína María Guðnadóttir (unglingaflokki), Margrét Lea Kristinsdóttir (unglingaflokki), Breki Snorrason (drengjaflokki) og Orri Geir Andrésson (drengjaflokki).

Stefán Ingvarsson átti sitt besta mót í vetur og var með besta árangur íslensku piltanna í fjölþraut.  Hann hafnaði í 16. sæti (af 21).  Margrét Lea átti sömuleiðis mjög gott mót og átti næst bestan árangur íslensku keppendanna í fjölþraut þar sem hún hafnaði í 13. sæti (af 23).  Bæði voru nærri því að komast í úrslit á áhöldum, Stefán á svifrá og Margrét á gólfi og tvíslá, en því miður gekk það ekki að þessu sinni.  Nína María ferðaðist til Finnlands en landsliðsþjálfarinn valdi hana sem varamann í þetta skiptið.

Nanna Guðmundsdóttir (Gróttu) var eini íslenski keppandinn í flokki unglinga sem krækti í verðlaun á þessu móti þar sem hún hafnaði í 3. sæti á gólfi og á stökki í úrslitum.

Þeir Breki og Orri kepptu í drengjaflokki og stóðu sig báðir frábærlega.  Þetta var fyrsta mót þeirra fyrir landslið Íslands.  Breki sem keppti á öllum áhöldum hafnaði í 21. sæti í fjölþraut (af 23).  Orri keppti á fimm áhöldum (af sex) og stóð sig einnig mjög vel.  Báðir komust þeir í úrslit, Snorri á hringjum og Orri Geir á tvíslá.  Þar hafnaði Snorri í 8. sæti og Orri Geir í 7. sæti (af 8).

Martin Bjarni Guðmundsson (Gerplu) stóð sig frábærlega í drengjaflokki og hafnaði í 2. sæti í úrslitum á stökki og í 3. sæti á svifrá.  Jónas Ingi Þórisson (Ármanni) náði einnig í verðlaun þegar hann varð í 3. sæti á stökki.

Myndin sem fylgir fréttinni er af drengjalandsliðshópnum, Breki (2. frá vinstri) og Orri Geir (3. frá vinstri).