Margrét Lea varð þriðja í fjölþraut á NM
Norðurlandamótið í áhaldafimleikum var haldið í húsakynnum Ármanns um helgina.
Fimleikafélagið Björk átti 5 keppendur á mótinu, þær Sigríði Hrönn Bergþórsdóttur og Tinnu Óðinsdóttur í kvennaflokki, Margréti Leu Kristinnsdóttur og Vigdísi Pálmadóttur í unglingaflokki stúlkna og Breka Snorrason í unglingaflokki drengja. Auk þeirra var Andrea Ingibjörg Orradóttir varamaður í kvennaflokki.
Margrét Lea gerði sér lítið fyrir og varð í 3ja sæti í unglingaflokki stúlkna, en hún komst í úrslit á tvíslá þar sem hún endaði í 5. sæti og á slá þar sem hún hafnaði í því 4. Til viðbótar varð íslenska stúlknaliðið í þriðja sæti í liðakeppninni.
Kvennalandsliðið stóð svo í fyrsta skipti uppi sem Norðurlandameistari og áttu þær Sigríður og Tinna mikinn þátt í þeim sigri en þær höfnuðu í 15. og 20. sæti í fjölþraut. Sigríður Hrönn komst í úrslit á stökki og hafnaði þar í 4. sæti og hlaut svo bronsið í úrslitum á gólfi en þar varð Tinna í öðru sæti en hún var jafnframt varamaður í úrslit á slá.
Karla og drengjalandsliðin áttu hinsvegar við ofurefli að etja og unnu hvorugt til verðlauna. Breki stóð sig þó vel. Hann keppti á öllum áhöldum og hafnaði í 21. sæti í fjölþraut og var varamaður inn í úrslit á svirá.