Freyja og Stefán íþróttafólk ársins 2012 hjá Fimleikafélaginu Björk!

  • 22. desember, 2012

Freyja og Stefán íþróttafólk ársins 2012 hjá Fimleikafélaginu Björk!

Fyrr í dag fór fram viðurkenningarhátíð hjá Fimleikafélaginu Björk þar sem veittar voru viðurkenningar fyrir íþróttafólk ársins hjá félaginu. Að þessu sinni urðu fyrir valinu þau Freyja Húnfjörð Jósepsdóttir og Stefán Ingvarsson, en þau æfa bæði fimleika hjá félaginu.tn_500x_1755-0

Freyja keppti fyrir Íslands hönd á Evrópumóti unglinga sem fram fór í Belgíu sl. vor og var þar með hæstu samanlagða einkunn íslensku keppendanna. Freyja varð á árinu tvöfaldur Íslandsmeistari unglinga þar sem hún sigraði á stökki og á jafnvægisslá. Hún er Bjarkarmeistari og fór fyrir liði Fimleikafélagsins Björk sem varð í 2. sæti á bikarmóti FSÍ í frjálsum æfingum. Í nóvember hlotnaðist Freyju mikill heiður þegar henni var boðið á sterkt fimleikamót í Belgíu þar sem hún tók þátt og stóð sig með mikilli prýði.

Stefán var tvívegis valinn í landslið Íslands á árinu.  Fyrst keppti hann á Norðurlandamóti drengja (12-14 ára) í Danmörku sl. vor þar sem hann komst í úrslit á tveimur áhöldum og hafnaði þar í 6. sæti (hringir) og í 8. sæti (tvíslá). Síðan keppti hann á Norðurlandamóti drengja (13-16 ára) sem fram fór í Íþróttamiðstöðinni Björk sl. haust. Þar stóð hann sig mig mikilli prýði og hafnaði Ísland í 4. sæti á mótinu, á undan Finnlandi og Færeyjingum. Stefán varð í 4. sæti á tvíslá á Íslandsmóti unglinga sl. vor. Í haust keppti Stefán á Mílanó meistaramótinu, í flokki drengja, þar sem hann sigraði á tveimur áhöldum, tvíslá og bogahesti.

Auk ofangreindra viðurkenninga var íþróttafólk ársis hjá hverri deild fyrir sig heiðrað.

Hjá Taekwondodeild félagsins var Sigurður Pálsson valinn Taekwondo karl ársins.  Sigurður varð í 2. sæti í -55 kg flokki hábelta unglinga á Scottish Open í nóvember síðastliðinn.  Hann varð einnig í 3. sæti í sama flokki á Bikarmóti TKÍ í ólympísku sparring.  Taekwondo kona ársins var valinn Aníta Viggósdóttir.  Aníta varð í 1. sæti í -49 kg flokki unglinga á Scottish Open.  Hún varð í 2. sæti í sama þyngdarflokki hábelta unglinga í ólympísku sparring á bikarmóti TKÍ auk þess sem Aníta varð í 3. sæti í poomse/form á sama móti.

Hjá klifurdeild var Sara Dögg Sveinbjörnsdóttir valin klifurkona ársins.  Sara varð Íslandsmeistari í grjótglímu á árinu.  Sara er flutt til Nýja Sjálands og gat ekki tekið við viðrkenningu sinni í dag en æfingafélagi hennar Ríkey Magnúsdóttir (klifurkona ársins 2011) tók við viðurkenningunni fyrir hennar hönd. TKDarsins12500