Kristjana Ýr vinnur sinn annan Íslandsmeistaratitil! – Íslandsmótið í áhaldafimleikum

  • 11. mars, 2013

Kristjana Ýr vinnur sinn annan Íslandsmeistaratitil! – Íslandsmótið í áhaldafimleikum

Kristjana Ýr vann sinn annan Íslandsmeistaratitil í unglingaflokki í keppni í úrslitum á áhöldum sem fram fór á öðrum degi Íslandsmótsins í áhaldafimleikum sem haldið var í Versölum (hjá Gerplu) nú um helgina.  Kristjana sigraði í úrslitum á tvíslá.  Verðlaunaafhending á tvíslá var mjög ánægjuleg fyrir Fimleikafélagið Björk þar sem Bjarkarstúlkurnar Nína María Guðnadóttir hafnaði í 2. sæti og Steinunn Anna Svansdóttir í því þriðja.  Sjá mynd af þeim stöllum á pallinum með fréttinni.

Auk ofangreindra verðlauna varð Kristjana Ýr í 2. sæti á stökki og gólfi, Steinunn Anna varð í 3. sæti á jafnvægisslá og Nína María í 3. sæti á stökki.  Glæsilegur árangur þetta hjá Bjarkarstúlkum.  Gerplustúlkurnar Sigríður Hrönn Bergþórsdóttir (gólf og stökk) og Gyða Einarsdóttir (jafnvægisslá) urðu Íslandsmeistarar á hinum áhöldunum í unglingaflokki.

Í keppni fullorðinna hélt Thelma Rut Hermannsdóttir frá Gerplu uppteknum hætti og sigraði á tveimur áhöldum (stökki og jafnvægisslá), Dominiqua Alma Belanyi (Grótta) sigraði á tvíslá og Hildur Ólafsdóttir (Fylki) varð Íslandsmeistari á gólfi.tn_500x_1811-0

Hjá strákunum í unglingaflokki skiptu þeir jafnt með sér verðlaunum (3 gull hvor) Gerplupiltarnir tveir, Valgarð Reinhardsson og Hrannar Jónsson.  Í fullorðinsflokki bætti hinn nýkrýndi meistari frá deginum áður, Ólafur Garðar Gunnarsson frá Gerplu, við sig þremur gullverðlaunum (hringir, stökk og svifrá).  Meistarinn frá því í fyrra, einnig frá Gerplu, Róbert Kristmannsson sigraði á gólfi og bogahesti, og Sigurður Andrés Sigurðarson tryggði loks eina Íslandsmeistaratitil Ármenninga á mótinu þegar hann vann gullverðlaun á tvíslá.

Sjá öll úrslit frá öðrum degi mótsins hér!