Klifurkrakkar í kröppum dansi

  • 18. apríl, 2016

Æfingaferð klifurdeildarinnar lengdist nú heldur betur í annan endann um helgina, þökk sé íslenska vorinu.

Klifurdeildin skellti sér til Dalvíkur í hina árlegu æfingaferð og gekk allt eins og í sögu, aðstaðan og stemmningin alveg upp á 10.

Hópurinn lagði svo af stað heim þegar líða fór á sunnudaginn, í þessu líka fína veðri, en það entist ekki lengi.  Þegar kom að Öxnadalsheiðinni var útlitið orðið frekar svart og mikill skafrenngingur og leiðinda færi.  Hópurinn stoppaði svo í Staðaskála til að borða kvöldmat og það var líklegast eins gott því á meðan þau biðu eftir matnum var Holtavörðuheiðinni lokað og hópurinn sat því fastur í Staðaskála.

Þessir flottu krakkar kipptu sér nú lítið upp við það og drógu upp spil og sitthvað annað sér til dundurs og voru foreldrum sínum og félaginu til fyrirmyndar þar sem þau biðu.

Heiðin opnaði svo rétt eftir miðnætti og skiluðu allir sér í hús um þrjú leitið í nótt, þreyttir en sælir.