Um fimleika

Fimleikar hjá Björk

Fimleikar á Íslandi samanstanda að mestu leiti af áhaldafimleikum og hópfimleikum.

Áhaldafimleikar eru einstaklingsíþrótt. Á örfáum mótum er þó keppt í liðakeppni þar sem æfingar einstaklinga telja saman til stiga í liðakeppni. Áhöldin sem keppt er á í kvennaflokki eru slá, tvíslá, gólf og stökk en í karlaflokki er keppt á gólfi, stökki, svifrá, tvíslá, hringjum og bogahesti.
Í hópfimleikum er keppt í kvenna, karla og blönduðum flokki og eru að lágmarki 6 sem keppa í einu á hverju áhaldi og er það frammistaði liðsins í heild sem ákvarðar einkunnina. Áhöldin eru þrjú, gólf, trampólín og dýna. Auk þessa hefur stökkfimi verið að riðja sér til rúms en það er einstaklingskeppni á sömu áhöldum og stokkið er á í hópfimleikum, þ.e. dýna og trampólín.

 

Áhaldafimleikar

Til að iðkendur njóti sín sem best og fái sem mest út úr æfingum er mikilvægt að þeir séu í hópum með öðrum iðkendum á sama getustigi. Þegar svo er getur þjálfari skipulagt æfingar þannig að þær henti öllum iðkendum sem best og æfingarnar verða þar með bæði ánægjulegri og árangursríkari en ella.

Hjá Fimleikafélaginu Björk er notast við stöðumat sem metur styrk, liðleika, hraða, þrek og getu í ákveðnum æfingum til að raða í hópa. Einnig er stuðst við íslenska fimleikastigann sem gefinn er út af Fimleikasambandi Íslands.

Við hópaskiptingu er ekki tekið tillit til búsetu, vináttu og/eða fjölskyldutengsla iðkenda eða annara atriða óháðum fimleikum nema iðkendur flokkist á sama getustigi skv. ofangreindu mati.
 
Hófimleikar/stökkfimi

Í hópfimleikum er hópaskipting meira í anda þess sem fólk þekkir úr boltagreinum. Skipt er í flokka eftir aldri og fara áherslur í æfingum eftir aldri og getu iðkenda. Flokkarnir eru frá 4. upp í 1. flokk og aukast erfiðleikakröfurnar eftir því sem líður á.  Þeir sem eru lengra komnir keppa eftir alþjóðlegum TeamGym reglum en þeir sem eru komnir skemmra á veg keppa eftir sömu reglum með undanþágum.

Fimleikar fyrir alla

Fimleikar fyrir alla (FFA) er námskeið sem hentar öllum frá 8-18 ára. Þetta námskeið er tilvalið fyrir iðkendur sem vilja æfa skemmtilega og fjölbreytta íþrótt án þess að keppa í henni. Reynsla í fimleikum er ekki nauðsynleg. Því hentar þetta einnig þeim sem byrja seinna að æfa fimleika.

Á æfingum er lögð áhersla á grunn í fimleikum, þrek, þol og teygjur. Einnig er lagt upp úr að iðkendur fái að kynnast hinum ýmsu hliðum sýningarfimleika eins og trampolín, dýna, dans og parkour. Því ættu allir að geta fundið eitthvað við sitt hæfi í heilsueflandi umhverfi.

Parkour

Í Parkour fer hópaskipting fyrst og fremst eftir aldri þar sem ekki er um nema einn flokk að ræða í hverju aldursbili. Þegar fjöldinn í flokk verður það mikill að skipta þarf hóp upp, er tekið tillit til þess hvar iðkendur eru staddir getulega í íþróttinni.  Í Parkour A, sem er hópur þeirra sem eru lengst komnir, er skipt eftir getu.

Foreldrar

Til að barn fái sem mest út úr fimleikaiðkun þarf margt að smella saman, það er ekki bara félagið, þjálfarinn og iðkandinn sem skipta máli, heldur líka foreldrarnir.

Mikilvægt er að ef ósætti kemur upp að foreldri gagnrýni ekki í eyru barns heldur fari með óánægju sína beint til félagsins og leiti skýringa og úrlausna ef þarf.

Nýjar rannsóknir benda til þess að einn mikilvægasti þáttur forvarna sé styrkur foreldrastarfsins í félögum og deildum.  Eftir því sem innbyrðis tengsl þeirra eru meiri, þeim mun betra.  Reynslan sýnir að of fáir vinna mikið starf fyrir alla.  Foreldrar eru því hvattir til að taka þátt í starfi deildarinnar með einum eða öðrum hætti.